Thursday, December 28, 2006

Gledilega for-, nu- og framtið

Hey þið nokkru sálir, ekki nema 360 dagar til næstu jóla, get varla beðið. Er þegar byrjaður að undirbúa matseðilinn og skipuleggja pakkainnkaup, enda er allt á 50-70% afslætti í Kolding þessa daganna. Það er það góða við útlöndin og útsölurnar að það skiptir ekki máli hvað ég gef ykkur í jólagjöf, þið getið ekki skipt því....

Samt alltaf gaman að fylgjast með ykkur þarna upp frá, það er ekki lognmollunni fyrir að fara enda vestfirðir á kafi, selfosskirkja orðin að innisundlaug og Vestmannaeyjar týndar skilst mér. Domínos gerði hjartahreint góðverk og þakkaði viðskiptavinum sínum árið með jólakveðju og í leiðinni tóku þeir allar fyrirsagnir dagblaðanna af dópsölum, nauðgurum, árstíðarbundnum hátíðarinnbrotum glæpamanna heimsins, yfirlýstum meðferðarheimilismisnoturum og hinu íslenska forsíðuvæna veðri. Gott að vita að hlutunum er enn forgangsraðað á réttan hátt, ég hef ekki áhyggjur á meðan.

Sniðugt stunt hjá Alcan um hátíðarnar að gefa Hafnfirðingum DVD disk með Bó í von um málefnalega umræðu á stækkun álversins. Ekki veit ég hvernig Bó tengist málefnalegri umfjöllun um álver en ég hef einhvern veginn á tilfinningunni að helstu heimildir álversmanna um Hafnfirðinga sé klassíska meistaraverkið 365 Hafnarfjarðarbrandarar. Hvað gekk þeim til? Þetta er svona "sjáðu fuglinn!" allir líta upp og BANG, álverið stækkað.

En komandi ár lítur vel út, framtíðin er björt og heilbrigð í alla staði fyrir okkur Íslendinga. Alvarlegum slysum er að fjölga, náttúran menguð af fleiri verksmiðjum og Árni Johnsen aftur inn á þing svo eitthvað sé nefnt. Sem sagt björt framtíð og ekkert til að hafa áhyggjur af.

Njótið dagsins

No comments: