Monday, December 24, 2007

kveðja

Gleðileg jól og farsælt komandi ár til þín litli minn og litla mín.....

Friday, December 14, 2007

Nu er úti veður gott...

ó veður, ó veður, ég elska þig. Sérstaklega þegar þú kemur fram sem óveður og traðkar yfir aðra en mig. Frekar einkennileg tilfinning að lesa um allt þetta óveður á Íslandi, þegar maður er í valkrísu hér í kolding hvort að það taki því að fara í jakka!! Svo skokkar maður (smá ýkjur) út í búð og mætir gaurum í kvartbuxum með brettið undir hendinni. Ekki alveg eitthvað til að kveikja í jólaskapinu....
Ekkert annað að gera en að loka sig inn í koti með ofninn á 180 og hrærivélina á fjórum, jólahjól í tækinu og piparkökumálun í stofunni. Það eru víst bara jól einu sinni á ári og þá vill maður ekki missa af þeim vegna veðurs. Of góðs veðurs!!!

Wednesday, December 12, 2007

Þetta er nú bara snillingur þessi drengur....

Ef maður fær mann í viðtal vegna þess að hann villir á sér heimildir, er þá hægt að fara í fýlu út í viðkomandi fyrir að villa á sér heimildir aftur?? Bara pæling sem vaknaði í vinnunni....

Konfekt gerð á hundraðinu á heimilinu og jólakortagerð er langt komin, ef þið viljið fá send jólakort þá megið þið endilega hafa samband og ég sendi eitt um höfuð, herðar, hné og hæl.

Rita fleiri stafi síðar.
The S.

Sunday, December 09, 2007

Vífill og Vogar

Það var kominn tími til að einhver sýndi á sér kúlurnar á Íslandinu góða án þess að vera með fulla vasa af peningum. Það er djúp virðing fyrir manni sem svínar á allar reglur og siði án þess þó að skaða einhvern illa, nema auðvitað grey fréttamannin á stöð 2. Vífill Atlason er nafn sem er fyndið að vitna í þessa daganna og vonandi nýtur hann þess að vera svona á toppnum. Því eflaust er fallið jafn hátt og klifrið upp. Samt svívirðilegt til þess að hugsa að RUV skuli haga sér svona á samkeppnismarkaði, en drengurinn leysti þetta mál af einskærri snilld.
Finnst eiginlega að Ólafur Ragnar ætti að hringja í Bush og panta viðtal, leyfa svo stráknum að svara og klára málið. Hann verður að fá að keyra málið í höfn, ég get ekki ímyndað mér hvað hann hefði annars sagt við runnann.
Ekki alveg jafn jákvæð athygli að reyna að þurrka Voga útaf kortinu með íkveikju, vantar allt hugmyndaflæði!!!

Thursday, December 06, 2007

stress er bara fyrir ......

Það er alltaf vænlegt til árangurs að byrja bloggsíðuna sína upp á nýtt þegar sólarhringurinn er ekki nægur til að snýta sér einu sinni. Ekki það að það sé eitthvað jólastress, alls ekki. Jólin koma ekki næstum því strax, svo það er langt í það að það stress láti á sér kræla. Ég er nú orðinn meira svona morðingja stressaður, það virðast allir vera að drepa alla í þessari blessuðu veröld. Heimurinn er fullur af svona smáklkkuðu fólki sem gæti triggast við minnsta pot. Ekki veit ég hvort það sé eitthvað sniðugt að ræða þetta eitthvað frekar, þetta gæti verið tekið rangt upp og triggað morðingjagen einhvers.
En þrátt fyrir góðar líkur miðað við margt annað, þá hef ég ákveðið að að hætta að stressa mig yfir biluðum einstaklingum og ákveðið að stressa mig frekar yfir jólunum. Þau eru jú bara næstum því á morgun og ég á eftir að gera allt!!! Ég blogga ekki meira í dag fyrir jólastressi, er ekki alveg að höndla þetta....
Vi ses!

Wednesday, November 28, 2007

Atvinna og dansari er ekki sama og atvinnudansari

Ég var í búð um daginn og það var ekkert merkilegt. Þannig að ekki ætla ég að skrifa neitt um það.
Kannski aðeins merkilegra að ég er kominn með vinnu hér í Kolding City of fear, sem eðalsölumaður!! Ég sel eingöngu quality og ekkert nema gæði. Þú færð það sem þú borgar fyrir og borgar fyrir það sem þú færð. Hvað ég er farinn að gera er annað og seinni tíma mál, en þetta er spennandi vinna á spennandi stað og varðar að mestu leyti spennandi staði.

Annars er ég að drukkna í verkefnavinnu í skólanum og ef ég hefði ekki "baywatch lifeguard official" próf upp á arminn þá væri ég eflaust dauður. Inn í þessum verkefna pakk er eflaust eitt það erfiðasta verkefni sem ég hef á öldinni þurft að leysa; 3-5 mínútna dans og takt æfingar fyrir unglinga. Eins og ég hafi einhvern takt eða dans í mér til að gefa áfram, nei, Gubbi var ekki svo góður við mig, hann gaf mér bara hár og loðið bak.
Rita kannski meir um andlega niðurlægingu og smánun þegar ég hef skilað myndbandinu. Lofa engum að setja það á netiið. Þið getið þá ekki séð það hér :)
Þangað til næst, dans on!

Friday, November 23, 2007

Sellulífsleikni

Þetta gæti bara ekki verið vonlausara. Búinn að safna öllum heilasellunum saman og skipta í tvö 11 sellna lið, annað líðið átti að sjá um skólann og hitt líðið um lífið og bloggið. Annað hefur nú komið á daginn og eru skólasellurnar með 8 lánssellur og því aðeins 3 sem sjá um restina. Bloggið var því mér óafvitandi sett á hakann og það kann ég ekki við.
Feitikallinn er kominn til að vera.... eða ekki vera, það er nú spurningin. En sellurnar eru í yfirvinnu núna og ekki allt of smart að bræða úr þeim, það eru ekki margar til vara.
Nú hef ég lifað eftir spakmælum sjónvarpsþáttahetju sem aldrei gleymist, Cliff Calvin, en hann útskýrði þetta fyrir Norm í einum Cheers þáttanna

"Sjáðu nú til Norm, þetta virkar svona....
Buffalahjörð getur aðeins farið jafn hratt og hægasti buffalinn í hjörðinni.
Og þegar veitt er úr hjörðinni eru það hinir hægustu og veikustu aftast í
hjörðinni sem eru drepnir fyrst.

Þetta náttúrulega val er mjög gott fyrir hjörðina í heild sinni því að með
reglulegum drápum á veikustu og hægustu einstaklingunum batnar heilsufar
hjarðarinnar og hraði hennar.

Á sama hátt má segja að mannsheilinn geti aðeins unnið eins hratt og hægustu
heilasellurnar leyfa. Eins og við öll vitum þá drepur alkohól heilasellur en
eðlilega drepur það hægustu og veikustu sellurnar fyrst.

Á þennan hátt veldur regluleg inntaka áfengis því að veikari sellurnar
drepast og þar með því að heilinn verður hraðvirkari og skilvirkari.

Þetta er ástæðan fyrir því að maður verður svona klár eftir nokkra bjóra!"

Ætli það sé hægt að kaupa eða skipta á sellum eins og fótboltaköllum? Kannski að fá eina hraða fyrir 2 hægar eða eitthvað svoleiðis?

Cheers!!
Siggi