Monday, July 17, 2006

Safari- ekki vafrinn, ekki ferðin heldur....

Hitabylgja undanfarna daga hefur gert það að verkum að tölvubúnaður feitakallsins neitar að vinna. Ástæðan ku vera mikil svitaköst feitakallsins, en eins og alþjóð veit þá svitnar hann á við meðal 30 manna fótboltalið. Verið gæti að hitabylgja þessi setti öll skrif hér á síðunni úr jafnvægi næstu vikurnar, en við vonum að röskunin verði sem minnst.
Í þessum hita hefur samt hver bílferð hér minnt á svona safari ferð og þegar maður er inni þá er besti vinurinn vatnið og juicerinn (djúserinn) sem á íslensku gæti útlagst safari. Sniðugt! Safari (ferðin) og safari (juicer) hér í Kolding, hver þarf að fara til Afríku?
Kveðjur frá Kolding höfuðborg eyðimerkurinnar

Tuesday, July 11, 2006

Panty Football í San Francisco

Stórskemmtilegt uppátæki. Þetta video er tekið af David Fratto læriföður og vini mínum í San Francisco. Þetta er tekið á Haight street en þar var ég í praktík í fyrravor. Það verður bara að viðurkennast að þeir taka svolítið skemmtilegan (homma-, kven- og ultrakarlmannlegann) vinkil á þetta og gera fótboltann all mikið meira macho heldur en hann raunverulega er. Þarna grætur alla vega enginn og enginn sem kallar á mömmu sína. Það er mikið af ítalskt ættuðu fólki þarna og óska ég þeim bara til hamingju með titilinn þó sárt sé. En lífið heldur áfram og ég er farinn út að smala saman í panty football.

Sunday, July 09, 2006

HM i raunveruleikaleik

Jæja gott fólk...og hinir líka. Hm í fótboltasparki er búið dáið og grafið. Úrslitaleikurinn dramatískur eins og lofað er á hverju móti og fæstir sáttir við sigurvegaranna. þessi keppni öðrum fremur minnir mig samt meira á óskarsverðlaunahátíðina en margar fyrrspilaðar knattspyrnukeppnir og ef að það hefðu verið Portúgalir sem hefðu mætt Ítalíu í úrslitum er ekki laust við að skipta hefði átt út dómaranum fyrir leiklistargangnrýnanda. Bravitsímó! segja þeir víst eftir vel heppnaða leiksýningu, standandi lófaklapp, tár í augunum og meira Bravitsímó! Leikararnir brosandi hringinn stíga fram á sviðið haldandi í hönd næsta leikara og reyna að koma hrósinu yfir á hann, passívir og hlédrægir; "Ég hefði aldrei dregið fram þessi karaktereinkenni Dr. Drake ef Laddi hefði ekki verið svona framúrskarandi og gefandi hjartasjúklingur!"
Þetta virkar ekki alveg eins í fótboltanum, það er ekkert hinum að þakka, það er enginn hinn. Þetta er einstaklingsleikur í hæsta gæðaflokki. Það er kemur samherjunum ekkert við og þeir eiga engann þátt í undirbúningi þess hve þú dast flott, það var 100% þitt stunt.
Það er undarlegt að maður skuli ekki kunna við þetta því að ég er nú annálaður knattsparksaðdáandi og ekki hefur mér enn leiðst í leikhúsi á þessari ævi, en mikið andskoti er þetta skelfileg blanda. Ég hef upplifað ofleik í leikhúsi og virðist það oft vera partur af öllum pakkanum. Það er ekkert eðlilegt við leikara sem sýna manni klassískt Shakespeare verk í leikhúsi, það er ansi oft einum of og stundum jafnvel tveim eða þremur of. Þetta árið varð ofleikur órjúfanlegur partur af nýafstöðnum grasleikum og ekki kæmi það mér á óvart að nokkrir þeirra sem eiga erfitt með að láta sjá sig aftur á knattspyrnuvelli létu reyna á ómælda hæfileika á fjölunum og það er örugglega hægt að plata mig í að leggja nokkra upphæð undir að næsti Hamlet verði svarthærður með krullur, tali portúgölsku og geti aldrei heimsótt Manchester borg framar.
Bravitsímó!