Thursday, January 26, 2006

konupæling

Þegar ég var strákur þá voru konur alltaf eitthvað svo fjarlægar, það var bara ein kona í lífi manns, mamma. Hún og þar með mín upplifun af konum yfir höfuð, var þannig að þær væru í því hlutverki að gefa manni mat, þrífa eftir mann og hjúkra þegar eitthvað slettist upp á milli okkar strákanna. Hörkutólanna. Það var eitthvað svo sjálfsagt að það ættu að vera konur þarna til staðar þegar við þörfnuðumst þeirra og væru ekkert að skipta sér of mikið af ef það væri ekkert kallað eftir þeim.
Eitthvað fannst manni þetta breytast þegar maður eltist (og eltist við þær). Þær gafu manni ekki lengur að borða heldur þurfti ég að fara að borga fyrir okkur. Ekki voru þær lengur til staðar við þrifin, heldur þurfti maður að þrífa sjálfur ef einhver átti að líta við manni. Ekki biðu þær lengur eftir manni heima eftir að maður kæmi slasaður (með marblett) heim af fótboltaæfingu, nei þær þurftu líka að vera einhversstaðar úti og ef maður hringdi, þá var manni (ekkert rosalega) kurteislega bent á að maður væri nú ekki að tala við mömmu sína!
Hvar klikkaði systemið, uppeldið?
Ég var alinn upp við það að vera hræddur við ókunnuga og að mamma reddaði öllu. Með þá hugsun í kollinum verður maður auðvitað hræddur við allt kvenfólk nema það líkist mömmu. Sem að endingu lendir beint í hausnum á manni, því tilvonandi konuefni vilja ekkert vera eins og mamma!!! Mamma verður þess vegna í flestum tilvikum óvinur þeirra númer 1,2 og 3. Þetta fyrirkomulag leiðir hinsvegar til þess að mamma verður alltaf áfram nokkurskonar áningarstaður, kvörtunarbanki, fyrir menn sem þreytast eða "pirrast" á konum sínum, því mömmurnar vildu aldrei missa okkur til einhverra illa upp aldra tengdadætra. Sem betur fer.

En í gegnum tíðina hefur mér fundist þetta fyrirkomulag á uppeldi ungra drengja verið frekar vafasamt og árekstragjarnt, en sem betur fer hafa verið tekin "framfaraskref" í okkar þágu. Nú er það bara pabbi sem eldar, þrífur og huggar, við vitum þannig ekkert hvernig konum við eigum að leita að og þegar við loksins finnum eina, þá verða hún og mamma vinkonur!!!
Er eitthvað rangt við þessa þróun eða er ég kannski að verða of gamall?

1 comment:

Anonymous said...

finnst þér þetta nú vera framför? be a man