Hér nálægt miðdepli Danmerkur er allt á kafi í slabbi og skafrenningi, vindi og aumingjaskap. Strætó hætti að ganga á tímabili í dag og ég þurfti að viðra fagursmíðaðann Ford Escortinn til að sækja erfingjann og vini hennar í skólann. Ekki nóg með að strætóbílstjórum blöskraði "hríðin" og þorðu ekki út heldur voru starfsmenn skólastofnunar dóttur mínar yfir sig stoltir yfir hetjulegri og vasklegri framgöngu fjölskyldu okkar í óveðrinu...
Það er samt fyndið og líka svolítið fíflalegt að hugsa til þess hvað við Íslendingar lítum á okkur sem miklar íshetjur og veðurguði. Við erum ívið svalari og veraldarvanari en flestir aðrir þegar kemur að vindi og ofankomu, hvers kyns sem hún er (nema kannski froskaregni). Við meira að segja rennum aðeins niður og tökum af okkur hanskana á meðan að hinir óveðruðu útlendingar horfa grýlukertasettum öfundaraugum á okkur harðjaxlana hoppa út og ýta. Einum, tveimur og fleirum bílum ýtum við eins og ekkert sé, en bara út í kant. Ég ýti ekki bílunum þeirra aftur inn á veginn þar sem vinir mínir og skyldmenni gætu verið á ferðinni, ekki sjens.
Þetta litla land, sem límt er við Þýskaland en tilheyrir nú samt sem áður Skandinavíu og ætti þar af leiðandi að lúta eðlis og líffræðilegum þáttum víkinganna sem þeir stæra sig nú mikið af, er ekki hátt sett í mínum huga sem vetrarhugsandi þjóð. Þeir verða alltaf jafnhissa þegar það snjóar og blæs og ekki trúðu þeir nú þessu nýjasta útspili veðurguðanna svona rétt ofan í skírnarveislu aldarinnar sem framin verður á laugardaginn kemur. Þetta getur nú ekki verið sanngjarnt! Prinsins og prinsippisins vegna auðvitað!
Danir eru góðir á mörgum sviðum, en þeir verða seint settir ofarlega á listann minn yfir snjóferðafrömuði heimsins.
Thursday, January 19, 2006
Subscribe to:
Post Comments (Atom)
No comments:
Post a Comment