Wednesday, January 31, 2007

Erfiður dagur

Það er ekkert hægt að segja í dag, röddin er farin, sálin sködduð, mér er strítt í skólanum og það mun verða dimmt í allan dag. En djöfull vorum við samt góðir í gær, þetta var leikur sem á eftir að lifa lengi þrátt fyrir tap.

Áfram Ísland.

Friday, January 19, 2007

Heilastorknunarframgangslosun

Ég þekkti einu sinni mann, Jón hét hann, hann vann og vann. Jón var sjúkur maður aldrei glaður frekar staður. Eitt sinn lagðist Jón í dvala oní bala, sem fullur var af grænum froskum frekar sposkum jafnvel skoskum. Hann lá með þeim í hægðum sínum, ekki mínum og ekki þínum bara froskahóp og grænum svínum. Veiktist Jón við baðið illa, fékk kvilla sem erfitt var að stilla. Dró á enda Jón til dauða, skildi eftir síðu auða í ævisögu kauða.

Æ þetta er bara einn af þessum dögum sem þarf að klára og það er víst betra að drepa tímann áður en tíminn drepur mann.
Góða helgi.

Monday, January 15, 2007

Nu er uti veður vont...

Það hreyfir smá vind hér á flatlendinu og allt verður vitlaust, tré detta á hausinn, vatn heldur að það geti flogið en fuglar ekki. Veðurfréttamenn keppast um athyglina enda yfirleitt ekki mikið að gerast hérna í blæstri og ofankomu, ekki hingað til alla vega. Skip komast ekki undir bruna og bílar ekki yfir hana, fólk er beðið um að halda sig innan dyra og þeir sem vinna hjá hinu opinbera bölva í hljóði eftir að hafa verið sendir út að reykja nú eftir áramótin. Allir bölva og ragna, með hvíðahnút í maganum og kúkinn í brókinna agnúast þeir yfir því að veröldin gæti verið að farast, Danmörk að slitna frá meginlandinu, bruna út á ballarhaf og sökkva.
En þetta er nú bara það næsta sem maður kemst heimþrá held ég.

Wednesday, January 10, 2007

Næstum eins og Susan Sarandon......

Ég held ég sé neyddur til að finna betri mynd af mér, þetta eru nú ekki fallegustu lúkkalækarnir í bransanum. En ég er nú svo sem engin perla heldur :( En ég er næstum því 60% líkur Susan Sarandon og hún er nú ekkert ljót, það er plús.

Tuesday, January 09, 2007

Af hverju erum við hamingjusamari?

Ekki tími fyrir eitthvað bull heldur bara blákaldar staðreyndir í dag, síðasta prófið í 40 tíma fjarlægð og lítill tími til þess að anda.
Fann þetta á netinu, þetta eru einhverjir snillingar sem hafa sett saman tuttugu ástæður fyrir því að karlar séu hamingjusamari en konur Mig langar að deila því með ykkur.

1. Við höldum eftirnafninu okkar.
2. Brúðkaupsundirbúningurinn sér um sig sjálfur.
3. Bifvélavirkjar segja okkur sannleikann.
4. Sama vinna, hærri laun.
5. Hrukkur auka á karakter.
6. Brúðarkjóll 300 þúsund, smókingleiga 5000 krónur.
7. Fólk horfir aldrei á brjóstið á okkur þegar við erum að tala við það.
8. Það er gert ráð fyrir því að við ropum og rekum við.
9. Símtöl taka 30 sekúndur.
10. Við vitum hitt og þetta um skriðdreka.
11. Við þurfum aðeins eina ferðatösku fyrir fimm daga frí.
12. Við getum opnað krukkur.
13. Nærbuxur kosta 500 kall, 3 í pakka.
14. Þrjú pör af skóm er meira en nóg.
15. Við erum ófærir um að sjá krump í fötum.
16. Sama hártískan endist í áratugi.
17. Við þurfum ekki að raka okkur fyrir neðan háls.
18. Eitt veski, eitt skópar, sami litur, allt árið.
19. Við ráðum hvort við látum okkur vaxa yfirskegg.
20. Við getum gert jólainnkaup fyrir 25 ættingja, á aðfangadag, á 45 mínútum

Alltaf jafn hissa á því hvað einfaldir hlutir koma manni í gott skap.

Njótið lífsins

Monday, January 08, 2007

Þetta er ekki blogg

Ég er ekki bloggari. Ég er bleikur, loðinn, sveittur, giftur, faðir, nemi, bíleigandi, oftast klæddur, stundum rakaður, þungur, stór, gleraugnagaur, rauðskeggjaður, frændi, vinur, kunningi og óvinur. En bloggari er ég ekki. Ég er hamingjusamur, latur, Arsenalmaður, húsbóndi, kattaeigandi, vinstrimaður og Íslendingur, en ég er ekki bloggari. Fannst bara eins og fólki fyndist eitthvað annað þar sem að maður skrifar pistla á netið, en það segir ekki neitt. Það er einnig alger tilviljun og villandi í þokkabót að þessi vefsíða beri eftirnafnið blogspot.com, þetta er samt ekki blogg.

Því miður lesandi góður, ef þú komst hingað inn til að lesa blogg þá ert þú ekki á réttum stað, blogg er bara fyrir unglinga og aðra sem hafa ekkert við líf sitt að gera. Hér eru einungis sagðar ofurtilfinningagildaþrungnar lífssagnir og hugsanir um hugsanir hugsandi manns. En blogg, nei! Farðu eitthvað annað.

Njóttu dagsins.

Friday, January 05, 2007

þetta er ekkert spaug

Það er fimmti dagur ársins og brosið er komið í allri sinni dýrð. Sólin varð 11 ára í gær og þá eru ekki nema 350 dagar í næsta pakkaflóð. Til hamingju með afmælið elsku dóttir.

Það eru örfáir bloggarar sem eru alltaf að reyna að vera öðruvísi og er það bara gott mál. Það sem er mest inn núna í að vera öðruvísi er að tala ekkert um skaupið, ég ætlaði að vera öðruvísi líka en er núna opinberlega sprunginn á limminu, (fyndið orðatiltæki; að springa á limminu, sniðugt). Sem íslenskum útlendingi þá leið mér einkennilega rétt fyrir skaupið, þetta var eins og að fara að horfa á danska mynd mánuði eftir að maður flutti hingað út, maður var ekki viss um hvort að maður myndi skilja eitthvað af því. En það fór allt vel og margir punktar í þessu annars fína skaupi koma líklegast til með að verða klassík hjá undirrituðum, eins og fréttamaðurinn við hjólastólakonuna og Britney aðdáandann....priceless! Ég fattaði aldrei (og nú kem ég örugglega upp um heimskingjann í mér) Plútó brandarana?? en fannst þeir samt fyndnir.....PÚFF!

Apaplánetu samlíkingin var ekki svo fjarri raunveruleikanum held ég, þó við komum kannski ekki til með að lifa hana, en gamalmenna- og Pólverjasmölunin er eitthvað sem er að verða raunveruleiki og Gísli á uppsölum að heimta flatskjá var bara fyndið. Er samt á því að allmargir Íslendingar hafi tekið upp á því að vilja vera öðruvísi og ekki láta Pál Magnússon setja sig í sama pakka og "alla hina" þ.e. finnast þetta fyndið. Ég er nokkuð viss um það að þeir sem segja skaupiið drepleiðinlegt, ömurlegt og þar fram eftir götunum, þeir hafi líklegast sofnað yfir annálunum og dreymt eigið líf á skaupstíma.

Fólk verður að gera sér grein fyrir því að einn þáttur getur ekki sameinað húmor 300.000 mannvera í einn hlæjandi hóp. Þetta er samt sem áður einn mesti sameingarklukkutími Íslendinga árlega og ef heilu hópunum leiðist svona yfir þessu þá er kominn tími til að skipta um partý, það hlýtur að vera félagsskapurinn sem dregur lífslöngunina og húmorinn á eitthvað "jakkaföt og bindi, skyrtan girt og skór í stíl við beltið" plan.

Losið um bindin og hneppið frá, sprengingarnar eru alltaf úti EFTIR skaup.

NJótið þess að vera til, það er svo miklu skemmtilegra!

Tuesday, January 02, 2007

Kynlegar kveðjur og kynbrenglanir

Úff.....


Úff.......


Ja hérna!


Eitthvað gengur maður fyrir litlu eldsneyti í dag, skólinn byrjaður í allri sinni dýrð og enginn tilbúinn undir átökin. Ég hef lifað í blindni þess að skólaganga sé fyrirbæri sem fær lágmark 3 daga til afréttingar á nýju ári en nú hefur mér verið vísað réttan veg. Fyrirlestur um praktikperíóðu 2 sem hefst í lok febrúar var skellt á 2. janúar, gleðilegt nýtt ár! Þetta kalla ég slæmar nýárskveðjur.

Annars vona ég að morgundagurinn verði bjartari og að ég vakni með sterkara ljós í hjartanu og örlítið fyllra batterí. Það er erfitt að vera ekki jákvæðari en þetta á öðrum degi nýs árs, en svona er ég skapaður. Ekki alfullkominn, en......

Vona að allir hafi haft það gott um hátíðarnar og séu að rétta úr kútnum. Mitt mottó ársins verður alla vega að rétta úr kútnum sem er aðeins farinn að dreifa úr sér. Konan gaf mér baðvigt og of lítið vesti í jólagjöf, er enn að pæla í því hvort ég eigi að móðgast eða ekki. Ef ég hefði gefið eitthvað slíkt í jólagjöf þá væri ég líklegast fráskilinn eða konan mín elskuleg orðin ekkja!! Svona eru nú kynhlutverkin óréttlát, en við kallarnir fáum meira útborgað (ekki ég samt) þannig að þetta er kannski bara allt í lagi, eða hvað?

Hilsen