Friday, December 29, 2006

Flugeldareglur um reglur gegn flugeldareglugerd

Fátt gerðist markvert í borg óttans í dag. Gerðum okkur þó ferð til flugeldakaupa og keyptum allt það stærsta sem selt var á markaðnum, alveg sáttir við það. Þó lentum við næstum í vandræðum vegna nýrra reglna sem komnar eru á hér í Danmörku, hver einstaklingur má víst bara kaupa 1,5 kíló af hreinu púðri!?! Og þá hefst reiknileiknin. Ekki kom það að sök hjá okkur því við vorum bara margir saman um hver kaup og reglurnar náðu okkur ekki, ekki í þetta sinn. Svo mátt þú ekki keyra á milli staða nema með 1,5 kg. af púðri að þar var komin regla sem við barasta urðum að brjóta, annað var ekki hægt (enda búnir að kaupa allt of mikið). Nú og ef að löggan bankar uppá þá erum við enn ekki sloppnir, því það gilda aðrar og enn fleiri reglur um geymslu flugelda í heimahúsum, skemmtilegt nok.

Kannski ekkert skrýtið í bæ sem ennþá er í sárum eftir sprenginguna fyrir rúmum 2 árum og nú rétt fyrir hátíðarnar sprungu bræður tveir í loft upp ekki svo langt hér frá. En miðað við verslunarferð okkar í dag og þá sem voru í röðinni þar, þá virðist það vera í lagi að dæla í sig nokkrum pillum, skola því niður með vodka, reykja sig svo niður og sprauta sig þar á eftir upp. Þegar þessir menn reyndu svo að setjast inn í bíl með sprengjurnar þá vandaðist málið því líkaminn virtist ekki vita lengur hvernig ætti að setjast inn í bíl með flugeldapoka og loka hurðinni á eftir sér. En þetta er allt í góðu, þeir voru bara með 1,4 kíló af púðri og þar af leiðandi enginn í hættu.

Góð áramót.

Thursday, December 28, 2006

Gledilega for-, nu- og framtið

Hey þið nokkru sálir, ekki nema 360 dagar til næstu jóla, get varla beðið. Er þegar byrjaður að undirbúa matseðilinn og skipuleggja pakkainnkaup, enda er allt á 50-70% afslætti í Kolding þessa daganna. Það er það góða við útlöndin og útsölurnar að það skiptir ekki máli hvað ég gef ykkur í jólagjöf, þið getið ekki skipt því....

Samt alltaf gaman að fylgjast með ykkur þarna upp frá, það er ekki lognmollunni fyrir að fara enda vestfirðir á kafi, selfosskirkja orðin að innisundlaug og Vestmannaeyjar týndar skilst mér. Domínos gerði hjartahreint góðverk og þakkaði viðskiptavinum sínum árið með jólakveðju og í leiðinni tóku þeir allar fyrirsagnir dagblaðanna af dópsölum, nauðgurum, árstíðarbundnum hátíðarinnbrotum glæpamanna heimsins, yfirlýstum meðferðarheimilismisnoturum og hinu íslenska forsíðuvæna veðri. Gott að vita að hlutunum er enn forgangsraðað á réttan hátt, ég hef ekki áhyggjur á meðan.

Sniðugt stunt hjá Alcan um hátíðarnar að gefa Hafnfirðingum DVD disk með Bó í von um málefnalega umræðu á stækkun álversins. Ekki veit ég hvernig Bó tengist málefnalegri umfjöllun um álver en ég hef einhvern veginn á tilfinningunni að helstu heimildir álversmanna um Hafnfirðinga sé klassíska meistaraverkið 365 Hafnarfjarðarbrandarar. Hvað gekk þeim til? Þetta er svona "sjáðu fuglinn!" allir líta upp og BANG, álverið stækkað.

En komandi ár lítur vel út, framtíðin er björt og heilbrigð í alla staði fyrir okkur Íslendinga. Alvarlegum slysum er að fjölga, náttúran menguð af fleiri verksmiðjum og Árni Johnsen aftur inn á þing svo eitthvað sé nefnt. Sem sagt björt framtíð og ekkert til að hafa áhyggjur af.

Njótið dagsins

Sunday, December 24, 2006

Jebb nu skal etið

Allir komnir fínu sköpin sín og stífpanneraðir kragarnir gera skyrturnar betri og hættulegri. Skötubrælan rétt að yfirgefa kofann og bógurinn kominn með yfirhöndina, jólanefkyrtlarnir eru að samþykkja tímann og skapið fylgir að sjálfsögðu.
Ég vil óska öllum gleðilegra jóla og mettra maga, megi kærleikssteikin troðast ofaní vömbina með græðgi og sósu. Jólakveðjur frá Kolding, borg hátíðar, friðar og fegurðar.
Skál!

Sunday, December 17, 2006

ho, ho ho!!

Já það er rétt, ég gat kallað fullt af konum "Ho's" í dag og það á jólaballi. Og engin þeirra sló mig, hehehe, bitches! (nú verð ég laminn). Ekkert eins glymrandi saklaust og rauður kall með poka, klappandi börnum, syngjandi gamla slagara með hálfkæfðri fullfalskri röddu. Hljómar ekki vel, en er samt yfirfullt af sjarma sem þó getur horfið þegar hann kallar alla Ho í kringum sig. Nóg um það.

Kolding borg óttans heldur áfram að hrella samborgara sína með óprúttnum bellibrögðum (kunnið þið einhver bellibrögð? látið mig endilega vita) og nú voru það sárasaklausir (á yfirborðinu alla vega) nágrannar mínir sem voru á leiðinni á jólaball sem komu að nýbrotnum og græjulausum bílnum sínum. Vantaði bara Gleðileg jól stimpilinn á húddið og rós í pústið til að koma boðskapnum til skila. Sorry guys!

Þetta er næstum eins og í Nörrebronx í kóngsins (sem er samt bara drottningarinnar) Köbenhavn, þar sem pönkarar og utangarðsmenn norðurbæjar leggja allt í rúst af því að húsið sem þeir eru búnir að leggja í rúst var tekið af þeim. Mér finnst persónulega að það hefði bara átt að leifa þeim að halda áfram að eyðileggja það sem þeir voru búnir að eyðileggja, þ.e. Ungdomshuset og sig sjálfa í mörgum tilvikum.

Góða nótt

Monday, December 11, 2006

Speedmetal, rugbrauð og sma Jesu

Ég fór á dauðarokkstónleika um daginn og fílaði það geðveikt. Headbangaði reyndar engann og hefði vel getað verið pabbi margra þarna en mikið svakalegt power var í húsinu. Ég og Hreiðar félagi minn skelltum okkur á tónleika með hljómsveitunum Lost Asylum og Process sem eru ansi harðar grúppur. Iron Maiden "rokk" æskan mín leit út eins og Wham í hljóðveri við hliðina á þessum gítarskrímslum og öskrum. Poul félagi okkar úr sparkfélagi KFUM er bassaleikari Process og mikið andskoti er hann mikill rokkari, hefði aldrei trúað því á þetta grey.

Skelltum okkur hjónin í danskann julefrokost á laugardaginn var. Ansi vel tekið áþví þann daginn og matur og drykkja hófst stundvíslega klukkan 1300. Við svindluðum á snafsinum og skildum hann eftir heima og ég held að það sé eina ástæðan fyrir því að ég man eftir mér til miðnættis.....eftir það varð svo dimmt úti og inni að ekki sáust handa skil. Síld, karrísalat og rúgbrauð, fiskefilet, remúlaði og rúgbrauð, kjötbollur, leverpostej, rauðkál og rúgbrauð og endað á hamborgarhrygg, grænkáli, rauðkáli, purusteik, sinnepi og...........RÚGBRAUÐI. Dásamlegt fyrir meltinguna að komast í svona julefrokost með rúgbrauði. Ég var nú reyndar búinn að lofa sjálfum mér að fara ekki í átt að klósettferðum í þessum pistli, en ég laug!

Verkefni, verkefni, verkefni, fullt að skila fyrir jól og ég er farinn að lesa the big B book, biblíutextar fyrir fimmtudag á dönsku. Luvlí

Friday, December 01, 2006

Eins og ekkert hafi gerst

Vildi bara láta vita að það varð ekkert vandræðalegt moment í íþróttum í dag, Allir bara hressir og grey stelpan virðist ekkert hafa skaddast við áðurnefnda ferð sína. Hef ekkert fundið neinn annann útlending og er farinn að gruna Danina um að "frame"a mig íslendinginn með því að loka dollunni í lyktslæmum tilvikum, sníkí bastards.

Lífið annars voða skítt hér bara eins og vanalega, það hlýtur að fara að hausta hérna fljótlega, beljur úti á haga í dag, keyrði fram hjá þeim á leiðinni úr skólanum. Þær sögðu mö og borðuðu gras, bara venjulegar beljur. Engar super vetrar útiveru beljur, bara beljur, skítandi með júgur.

Ætla að njóta helgarinnar í faðmi fárra, baka kannski (3 sortir komnar í krús) og jólast smá. Gefa köttunum að borða, opna dagatalið mitt, drekka jólabjórinn, fara á þungarokkstónleika og skulla mann og annann.

Góða helgi.